Aðalvalmynd:

© Iðnskólinn í Reykjavík

Sambúðarform

 

Hjúskapur

http://www.domsmalaraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/hjuskapur/ 

Verkefni ráðuneytisins varðandi hjúskaparlög 

 

Lög og reglugerðir

Hjúskaparlög, nr. 31/1993

 

Lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996

 

 Spurning

 

 

 

 

 

 

 Spyrjandi

 

 

 

 

 

 

Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Birgir Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkur Lögfræði   

 

 

 

18.10.2005 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Svar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Margir halda að réttaráhrif óvígðrar sambúðar séu hin sömu og hjúskapar, að minnsta kosti þegar óvígð sambúð hefur staðið í einhvern tíma. Í grundvallaratriðum er því þó ekki þannig farið, þrátt fyrir að á undanförnum árið hafi löggjafinn reynt að jafna mun á milli þessara sambúðarforma. Um óskráða sambúð gildir engin heildarlöggjöf eins og hjúskaparlög nr. 31/1993 um hjúskap. Á víð og dreif í íslenskri löggjöf má hins vegar finna lagareglur um óvígða sambúð.

Við slit hjúskapar gildir helmingaskiptareglan svokallaða, sbr. 103. gr. hjúskaparlaga, það er að hvor maki fær helming nettó hjúskapareignar við fjárskipti milli hjóna, sbr. 6. og 99. gr. hjúskaparlaga. Þegar um óvígða sambúð er að ræða gildir helmingaskiptareglan hins vegar ekki. Þetta merkir að við slit óvígðrar sambúðar tekur hvor sambúðaraðili það sem hann átti við upphaf sambúðarinnar eða eignaðist meðan á henni stóð. Þegar svo ber undir skiptir formleg eignaskráning miklu, svo sem hver sé þinglýstur eigandi fasteignar, á hvorn sambúðaraðilann bifreið sé skráð og svo framvegis. Haldi annar sambúðaraðili því fram að eignarréttur sé með öðrum hætti en formleg eignaskráning gefur til kynna, ber hann sjálfur sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.

Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, en það merkir að sambúðaraðilar eiga ekki rétt á arfi eftir hvor annan. Milli hjóna er hins vegar lögbundinn erfðaréttur og tekur því langlífari maki arf eftir skammlífari maka samkvæmt reglum erfðalaga nr. 8/1962. Sambúðaraðilar geta þó gert bréferfðagerninga, til dæmis erfðaskrá, sem kveður á um það að hinn sambúðaraðilinn skuli taka arf eftir þá. Þessi heimild sætir þó þeirri takmörkun sem kemur fram í 35. gr. erfðalaga en þar segir að arfleifanda er óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 eigna sinna eigi hann lögbundna erfingja, það er maka eða niðja. Þegar talað er um "maka" í erfðalögum er átt við hjón eða aðila í staðfestri samvist, sbr. lög nr. 87/1996, en ekki aðila í óvígðri sambúð. Þegar sambúðaraðili á lögbundna erfingja getur hann því aðeins ráðstafað 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Hinir 2/3 hlutar eigna hans ganga til lögerfingja hans skv. 2.–4. gr. erfðalaganna.

Sjöunda gr. erfðalaga nr. 8/1962 veitir maka, að meginreglu, rétt til að sitja í óskiptu búi eftir andlát hins makans. Þetta úrræði stendur aðilum í óvígðri sambúð hins vegar ekki til boða, enda nær hugtakið "maki" í erfðalögum aðeins til hjóna eða aðila í staðfestri samvist, eins og áður hefur verið vikið að.

Ekki er fyrir hendi gagnkvæm framfærsluskylda sambúðaraðila í óvígðri sambúð eins og hjá hjónum, en um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna er kveðið á um í 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með gagnkvæmri framfærsluskyldu er átt við skyldu beggja aðila hjónabands til að sjá hinu farborða.

Í 59.-66. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 er fjallað um takmarkað forræði hjóna á eignum sem notaðar eru fyrir heimili fjölskyldunnar. Í 60. gr. laganna er meðal annars kveðið á um það að sá aðili hjónabands sem á fasteign sem ætluð er sem bústaður fjölskyldunnar, geti ekki selt þá eign eða veðsett nema með skriflegs samþykkis hins aðilans.
Reglur um takmarkað forræði eigna gilda ekki um sambúðarfólk og er þeim því fullfrjálst að ráðstafa eignum sínum, þar á meðal þeim sem sambúðaraðilarnir búa í ásamt börnum sínum, eftir sinni hentisemi.

Munur á réttarstöðu hjóna og sambúðaraðila kemur einnig fram með öðrum hætti, til dæmis í lögum nr. 130/1999 um ættleiðingar, en eitt af skilyrðum þess að kona og karl geti ættleitt barn er að þau séu í vígðri sambúð eða í hjúskap, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þegar um óvígða sambúð er að ræða þarf sambúðin að hafi staðið í a.m.k. 5 ár til þess að sambúðarfólk megi ættleiða.

Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 getur líftryggingartaki tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað og skal þá líftryggingarupphæðin greidd til þess manns. Í 2. mgr. 105. gr. sömu laga segir að sé "maki" líftryggingartaka tilnefndur sé það sá maki sem að vátryggingartaki lifði í hjúskap með þegar hann andaðist. Í 4. mgr. 105.gr. segir að séu "erfingjar" tilnefndir sem rétthafar samkvæmt vátryggingarsamningi þá taki þeir sinn hlut af vátryggingarupphæð í hlutfalli við erfðarétt sinn, sbr. umfjöllun að ofan. Í 5. mgr. 105. gr. kemur fram að séu "nánustu vandamenn" tilnefndir sem rétthafar, þá teljist maki vera nánasti vandamaður, en ef að maki er látinn teljist börn hins látna nánustu vandamenn. Maki í skilningi þessara lagagreina er ávallt aðili í hjónabandi eða vígðri sambúð. Líftryggingartaki í óvígðri sambúð, sem vill
gera sambúðaraðila sinn að rétthafa, verður því að tiltaka hann sérstaklega í líftryggingarsamningi. Ekki er nægjanlegt að tiltaka maka, erfingja eða nánustu vandamenn.

Staða hjóna og fólks í óvígðri sambúð gagnvart félagslegri aðstoð er svipuð. Meðal annars má minnast á að í 44. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 segir að karl og kona í óvígðri sambúð hafi sama rétt til bóta og hjón, ef sambúðin hefur verið skráð í þjóðskrá lengur en í eitt ár. Einnig er rétturinn sá sami ef þau eiga barn saman eða ef konan er þunguð af völdum mannsins, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Réttur til makalífeyris skv. 16. gr. lífeyrissjóðslaga nr. 129/1997 nær bæði til aðila í hjónabandi, óvígðri sambúð og staðfestri samvist.

Reglur skaðabótaréttar horfa jafnt við aðilum í hjónabandi og í óvígðri sambúð. Þegar aðili á rétt á skaðabótum vegna fráfalls sambúðaraðila, skiptir ekki máli hvort um hjónaband, óvígða sambúð eða staðfesta samvist er að ræða.

Að lokum skal tekið fram að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Staða fólks í hjónabandi, annars vegar, og fólks í óvígðri sambúð, hins vegar, getur verið mismunandi hvað varðar til dæmis skattalöggjöf, jarðalög, barnalög, réttarfar, stjórnsýslu og lög um tæknifrjóvganir. Mismunandi réttarstaða aðila eftir sambúðarformi á þessum sviðum er háð nánari athugun.

Heimildir:

 

 

 

  • Lagasafn Alþingis á www.althingi.is

     

  • Fyrirlestrar um fjármálaskipulag í hjúskap, staðfestri samvist og óvígðri sambúð. Bráðabirgðaútgáfa til kennslu. Sigrún Jóhannesdóttir. Úfljótur. Reykjavík 2001.

     

  • Hjúskapur, Stofnun og slit, Réttindi og skyldur, Bráðbirgðaútgáfa til kennslu, Lára V. Júlíusdóttir. 2001.

     

  • Skýrsla Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks, samkvæmt beiðni. Skýrslan var unnin af Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðingi og var lögð fram á 126. löggjafarþingi 2000-2001 (þskj. 935 – 88. mál).

     

  • Skaðabótaréttur. Viðar Már Mattíasson. Bókaútgáfan Codex. Reykjavík 2005.

     

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Efnisorð 

 

 

 

gifting  sambúð  réttindi  hjónaband  hjúskapur  samvist 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Tilvísun 

 

 

 

Freyr Björnsson og Sigurður Guðmundsson. „Hver er helsti munur á að vera giftur og í sambúð, lagalega, tryggingalega, og svo framvegis?“. Vísindavefurinn 18.10.2005. http://visindavefur.hi.is/?id=5336. (Skoðað 23.8.2007).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Freyr Björnsson laganemi við HÍ
og Sigurður Guðmundsson laganemi við HÍ

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 http://www.samtokin78.is/?PageID=30&NewsID=1803

 

 

 

http://www.fulltingi.is/?PageID=21

 

 

 

Fjármál hjóna
Við hjúskap myndast fjárfélag með hjónum. Hvort hjóna um sig öðlast hjúskaparrétt yfir öllu því sem makinn á við giftinguna eða eignast síðar, að svo miklu leyti sem það er ekki séreign. Svonefndar hjúskapareignir koma til skipta milli hjóna við skilnað og einnig við andlát þess sem skammlífara er.

Eign verður hjúskapareign nema sérstakar heimildir leiði til annars. Þó er hægt að gera ráðstafanir til að koma á séreign og fellur þá fjárfélag hjóna niður að hluta eða öllu leyti. Algengt er að fólk stofni til séreignar með kaupmála eða kvöðum.

 

 

 

a) Kaupmáli
Hjón geta ákveðið með kaupmála að tilteknar eignir þeirra skuli vera séreign annars þeirra. Kaupmáli er skriflegur samningur milli hjóna, sem skrásetja þarf í kaupmálabók hjá sýslumanni og er nauðsynlegur til að eign í hjúskap verði séreign. Algengt er og eðlilegt að fólk leiti aðstoðar lögmanna við gerð kaupmála þar sem um þýðingarmikinn samning er að ræða.

b) Kvaðir
Gjafir verða séreign, ef þær eru gefnar öðru hjónanna með því skilyrði að þær skuli verða séreign þess. Sama máli gegnir um kvaðabundinn arf. Algengt er að ákvæði komi fram í erfðaskrám sem gera arf að séreign erfingja.

Í hjúskaparlögum er helmingaskiptareglan meginreglan um fjárskipti milli hjóna við skilnað. Þó getur verið um að ræða undantekningar frá þessari meginreglu ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjónanna. Sem dæmi má nefna ef hjúskapur hefur t.d. varað stutt eða ef annar aðilinn hefur flutt í búið verulega meira en maki hans við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.


Skilnaðir
Í íslenskum rétti er greint á milli skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar.

a) Skilnaður að borði og sæng
Ef hjón eru sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng ber að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar en þó verður að vera sátt um forsjá barna, greiðslu framfærslueyris með þeim og milli hjónanna sjálfra innbyrðis. Jafnframt er þess krafist að fyrir liggi skriflegur fjárskiptasamningur milli hjónanna eða úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti til fjárslita fari fram. Einnig getur annað hjóna sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, fengið skilnað að borði og sæng. Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng eru t.d. þau að trúnaðarskylda milli hjóna fellur niður, erfðaréttur þeirra í milli og framfærsluskylda (ef ekki hefur verið um að ræða greiðslu lífeyris til annars hjóna). Þá fellur samvistaskylda milli hjóna niður. Taki hjón upp samvistir að nýju á meðan að skilnaður að borði og sæng varir falla niður réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju. Þó hjón hafi fengið skilnað að borði og sæng er hjónabandinu þó ekki slitið og er hjónum óheimilt að giftast að nýju á meðan aðeins er um skilnað að borði og sæng að ræða.

b) Lögskilnaður
Til þess að hjúskap ljúki endanlega með skilnaði þurfa hjón að fá lögskilnað. Ef hjón eru sammála um að óska eftir lögskilnaði, geta þau fengið hann í fyrsta lagi sex mánuðum eftir að leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út. Annað hjóna á þó alltaf kröfu á lögskilnaði ef liðnir eru tólf mánuðir frá skilnaði að borði og sæng.

Ýmis önnur tilvik geta leitt til þess að hjón fái svokallaðan “beinan lögskilnað”. Hafi annað hjóna orðið uppvíst að hjúskaparbroti eða atferli sem má jafna til þess, getur makinn krafist lögskilnaðar án þess að skilnaður að borði og sæng komi til á undan. Það sama gildir einnig ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti sem bitnar á barni á heimilinu. Slíkt hið sama á við ef maki hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um slíkan verknað. Þá geta hjón krafist lögskilnaðar ef þau slíta samvistir sökum ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið minnsta.

Leyfi til skilnaðar að borði og sæng og til lögskilnaðar veita sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra ef samkomulag er um skilnaðinn. Að öðrum kosti ber að leita skilnaðar hjá dómstólum.

Algengt er að fólk sem stendur í hjónaskilnaði leiti til lögmanna til að fá aðstoð við frágang skilnaðarmálsins. Lögmaðurinn aðstoðar þá við gerð fjárskiptasamnings, en stundum þurfa mál að fara fyrir héraðsdóm ef ekki næst sátt um fjárskiptin.

 

 

 

Óvígð sambúð 
Margir standa í þeirri trú að sömu réttarreglur gildi um sambúðarfólk og um fólk í hjúskap. Það er þó alls ekki þannig því að hjúskaparlög eiga aðeins við um fólk í hjúskap. Sem dæmi má nefna að í óvígðri sambúð gildir ekki helmingaskiptaregla hjúskaparlaga um skiptingu eigna og skulda, ekki er um að ræða erfðarétt milli sambúðarfólks, óvígð sambúð skapar ekki rétt til setu í óskiptu búi eftir andlát skammlífari maka og ekki er gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðarfólks. Ekki er um að ræða neina heildarlöggjöf um óvígða sambúð. Stofnun sambúðar hefur þó ýmis takmörkuð réttaráhrif. Til dæmis geta karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð, átt rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón ef þau eiga sameiginlegt lögheimili, eiga barn saman, konan er þunguð eða ef sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár. Skilyrði er að þau óski bæði eftir þessu skriflega við skattyfirvöld.

Stofnun óvígðrar sambúðar hefur ekki áhrif á þær heimildir sem í eignarrétti felast og verða eignir ekki hjúskapareignir eða séreignir eins og milli hjóna. Í dómum hefur þó oft verið viðurkenndur réttur annars sambúðaraðila til hlutdeildar í eignamyndum (svonefnd fjárhagsleg samstaða) t.d. ef fasteign er aðeins þinglýst á nafn hins aðilans en þetta fer mjög eftir hverju tilviki um sig. Hvor maki um sig þarf að sanna sitt fjárframlag og byggja kröfu á eignatilkalli sínu og þá skiptir til dæmis máli hve lengi sambúðin hefur varað.

Náist ekki samkomulag við slit óvígðrar sambúðar má benda á 100. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Þar er kveðið á um að ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman í skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða þá að konan er þunguð af völdum karlsins, geti annað þeirra, eða þau bæði, krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra.

Reglur um skiptingu eigna milli sambúðarfólks eiga bæði við um slit óvígðrar sambúðar og um andlát annars aðila í óvígðri sambúð.

Ekki er lagaskylda til að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning við slit óvígðrar sambúðar eins og þegar um skilnað er að ræða. Fólk þarf ekki að mæta til sýslumanns til að slíta sambúð ef það á ekki saman börn undir 18 ára aldri. Eigi sambúðarfólk hins vegar saman ósjálfráða börn, þarf það að koma sér saman um skipan forsjár barna og greiðslu framfærslueyris með þeim við sambúðarslitin. Sé samkomulag um þau atriði er unnt að ljúka máli hjá sýslumanni en þar er ekki fengist við fjárskiptin. Ef samkomulag hefur ekki náðst, getur jafnvel þurft að koma til þess að mál fari fyrir dóm.


Barnaréttur
Í íslenskum barnalögum er m.a. kveðið á um ákvörðun á faðerni barna, forsjá og umgengnisrétt og framfærslu barna. Einnig eru lagaákvæði um barnarétt í hjúskaparlögum þar sem alltaf þarf að taka ákvörðun um skipan forsjár og greiðslu meðlags með börnum við skilnað foreldra. Þá er einnig að finna lagaákvæði um málefni barna í ýmsum öðrum lögum.

Algengt er að fólk leiti sér aðstoðar lögmanns vegna deilna um mál er varða börn, t.d. í faðernismálum, umgengnismálum, forsjárdeilum og vegna deilna um meðlag. Í deilum um umgengni reyna sýslumenn að ná samkomulagi og úrskurða í málunum ef það tekst ekki. Sýslumenn staðfesta samninga foreldra um skipan forsjár en ef ekki næst samkomulag þarf forsjármálið að fara til úrlausnar dómstóla.

 

 

 

Það er grundvallarsjónarmið í barnarétti að réttindi og þarfir barnsins séu mikilvægust og ætíð eigi að líta til þess hvað sé barni fyrir bestu, t.d. við skipan forsjár og umgengnisréttar. Eins og kunnugt er geta deilur foreldra haft mikil og slæm áhrif á börn og því er ætíð mikilvægt að foreldrar reyni að leysa málin þannig að deilur þeirra raski sem minnst jafnvægi og líðan barnanna. Oft getur því verið gott að leita til fagmanna þegar svo hagar til.

 

 

 

Fjölskyldan

 

Á vef sýslumannsins í Reykjavík eru ýmsar nytsamar upplýsingar um hjúskap, skilnaði, sambúðarslit, framfærslu barna, forsjársamninga faðerni, dánnarbú o.fl. http://www.syslumadur.is/